16.6.2008 | 22:27
Er Neytandinn fífl?
Stundum finnst Neytandanum að seljendur vöru og þjónustu telji hann fífl. Hvers vegna? Jú, þegar hann sér auglýsingar eins og þær sem birst hafa frá hóteli einu í Hveragerði undanfarna daga.
Í auglýsingu þeirri er samanburðartafla, sem jafnvel sljóasti neytandi myndi vart falla fyrir í því skyni að beina viðskiptum sínum til hótelsins. Samanburðartaflan er að sjálfsögðu m.v. hina frægu tölu: 2 fullorðnir og tvö börn (0-12 ára).
Hún er eitthvað á þessa leið:
---------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Gisting á tjaldsvæði 1.500 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Gisting og dvöl á fyrsta flokks hóteli 39.600 kr.
Aths. Neytandans:
Hvers vegna er "dvöl" innifalin í gistingunni á hótelinu en ekki á tjaldstæðinu? Er gert ráð fyrir að Neytandinn sé að "græða" eitthvað sérstaklega á að fá að "dvelja" á hótelinu sem hann keypti sér gistingu á??
---------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Bensín 19.786 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Morgunverður 0 kr.
Aths. Neytandans:
Hvenær varð bensín og morgunverður það sama??? Kannski drekkur einhver bensín í morgunverð! Kannski ekki! En gera þeir sem stýra Hótel Örk kannski ekki ráð fyrir því að þeirra kúnnar komi annars staðar frá en Hveragerði? Þá skilur Neytandinn kannski þennan samanburð!
----------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Gos og nammi á leiðinni 1.650 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Þriggja rétta kvöldverður 0 kr.
Aths. Neytandans:
Hvað varð um allan matinn frá morgunverði fram að kvöldverði fyrir alla fjölskylduna?? Þeir á Hótel Örk skaffa kannski gestum sínum skotsilfur fyrir millimáli?? Hélt ekki!
---------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Auka tjaldhælar og kælibox 2.400 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Sundlaug í bakgarðinum 0 kr.
Aths. Neytandans:
Bíddu!!! Aukatjaldhælar og kælibox??? Kannski ætlar Neytandinn bara að vera í fellihýsinu sínu, nú eða hjólhýsinu, með innbyggðum ísskáp og laus við alla tjaldhæla! En hvað með ef Neytandinn þarf að taka með sér heilsukodda og æðadúnssæng á Hótelið?? Hvað kostar það þá til viðbótar við nóttina??
----------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Einnota grill 1.490 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Golfvöllur í bakgarðinum 0 kr.
Aths. Neytandans:
Neytandinn sér ekki annað en nauðsynlegt sé að taka með sér einnota grill á Hótel Örk og grilla kannski pylsur handa fjölskyldunni á golfvellinum í bakgarðinum, þar sem greinilega er ekki boðið upp á neitt að borða frá því morgunverður er fram borinn, fram að kvöldverði! Neytandinn þarf jú að nærast!
--------------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Kol og grillolía 1.800 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Jarðgufubað á staðnum 0 kr.
Aths. Neytandans:
Bíddu bíddu bíddu!!!! Kol og grillolía??? Sé ekki annað en Neytandinn hafi þurft að taka með sér einnota grill í útileguna!! Hví skyldi hann þurfa kol og grillolíu líka???
Eða eru kannski jarðgufuböðin í Hveragerði drifin með kolum og grillolíu, sem Neytandinn á að skaffa??
-----------------------------------
Tjaldútilega úti á landi:
Matur og drykkur 12.000 kr.
Dvöl fyrir alla fjölskylduna á Hótel Örk:
Frítt á golfvöllinn í Hveragerði 0 kr.
Aths. Neytandans:
Auðvitað þarf aumingjans fólkið sem gistir á Hótel Örk að nærast eitthvað á milli mála sem þeir "skaffa" inni í þessu verði!! En til hvers að fara á golfvöllinn í Hveragerði??? Sögðu þeir ekki rétt áðan að það væri golfvöllur í bakgarðinum á hótelinu?? Eða seldu þeir hann í skiptum fyrir einnota grill?????
---------------------------------------
Annað hefur Neytandinn ekki um þetta að segja, en hér er auglýsingin sem um ræðir:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.